• OPIÐ 10-18 VIRKA D. 11-16 LAUGARD.
 • SENDUM FRÍTT ÞEGAR KEYPT ER FYRIR 15.000 KR EÐA MEIRA Í VEFVERSLUN!
 • S: (+354) 533 3500

SPURT & SVARAÐ

Hér koma allar helstu spurningar sem okkur berast um vörur okkar og þjónustu. Ef þú óskar eftir frekari upplýsingum, endilega hafðu samband við okkur á vogue@vogue.is eða í síma 533-3500.

 

 1. Er hægt að láta sérsníða gardínur hjá ykkur eftir málum?
  Já, Vogue sérsníðir alls kyns gardínur (t.d. rúllugardínur, screen, gluggatjöld, voal ofl.) eftir stífum málum. Jafnframt bjóðum við uppá fjöldann allan af gardínuefnum og litum svo allir ættu að geta fundið gardínur við sitt hæfi. Ef viðskiptavinir treysta sér ekki sjálfir til að mæla þá býður Vogue uppá þá þjónustu á að sérfræðingar koma heim til viðkomandi og skrásetja mál á þeim gluggum sem óskað er eftir gegn vægu gjaldi.

   
 2. Hvernig velur maður nýtt rúm?
  Þegar kemur að því að kaupa nýtt rúm er gott að hafa ákveðna hluti í huga. Ertu slæm(ur) í bakinu? Hvað ertu þung(ur)? Vilt þú og maki þinn sama stífleika? Það er mjög mikilvægt að gefa sér nægan tíma í að velja rétta rúmið þar sem þetta er sá hlutur sem þú notar mest á heimilinu og skiptir gríðarlega miklu máli fyrir góða líkamlega og andlega heilsu. Almennt gildir að eftir því sem viðkomandi er þyngri, því stífari dýnu á að hann/hún að kaupa. Í raun ætti maður að reyna að kaupa eins stífa dýnu og líkaminn ræður við án þess að finna þrýsting eða álag á mjaðmir og axlir. Óháð þyngd er gríðarlega mikilvægt að mjaðmir og axlir viðkomandi komi aðeins ofan í dýnuna til þess að dýnan nái að létta álagið á þessum svæðum. Sé mikill þyngdarmunur á rekkjunautum getur verið æskilegt að vera með sitthvorn stífleikann. Vogue getur sérsmíðað heila dýnu fyrir viðskiptavini (t.d. 160x200 cm eða 180x200 cm) sem er stífari öðru megin og mýkri hinu megin. Þar af leiðandi eru meiri líkur á að báðir aðilar sofi betur. Við mælum með að koma við í verslun okkar og fá ráðgjöf frá sérfræðingum okkar um val á nýju rúmi.

   
 3. Er hægt að skipta eða skila rúmi eftir ákveðinn tíma?
  Já og nei. Þegar viðskiptavinir kaupa nýtt rúm hjá okkur þá bjóðum við upp á 30 daga skiptirétt með því skilyrði að viðkomandi kaupir hlífðarlak hjá okkur. Hlífðarlökin kaupa flestir, óháð skiptiréttinum, til að vernda dýnuna fyrir óhreinindum, svita, bakteríum ofl. en hlífðarlökin tryggja að rúmið haldist hreint út líftíma þess. Hafir þú keypt hlífðarlak hjá okkur og finnst rúmið ekki nægilega gott eftir c.a. 3-4 vikur þá er ekkert mál að skipta um rúm við þig. Hafir þú keypt sérsmíðað íslenskt rúm er líka lítið mál fyrir okkur að mýkja dýnuna ef þér finnst hún of stíf eða gera hana stífari ef þér finnst hún of mjúk. Við bjóðum því ekki beinlínis uppá það að fólk skili rúminu og fái endurgreitt heldur skiptum við eða aðlögum frekar dýnuna að þörfum hvers og eins. Vert er að benda á að allur flutningskostnaður við dýnuskipti/breytingar greiðist af kaupanda.

   
 4. Sérsníðum við svamp eftir málum?
  Já, við hjá Vogue höfum sérsmíðað svampdýnur í rúm, húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi, skip, barnarúm, kojur og margt margt fleira í tugi ára. Við getum útbúið svampdýnur (og gormadýnur) eftir þínum málum, hvort sem um ræðir stífar, millistífar eða mjúkar dýnur. Þar að auki framleiðum við líka svamp fyrir leik- og sviðsmyndir sem og í alls konar bólstrunarverkefni eins og höfðagafla, stóla, sófa, bekki ofl. Við framleiðum einnig flettidýnur, sófa, leikhesta og fleiri vörur fyrir alla helstu skóla landsins. Framleiðslutíminn okkar er að jafnaði 5-10 virkir dagar (gæti breyst eftir magni) eða eftir samkomulagi. Ef sérsníða á svamp fyrir flókin verk er best ef viðkomandi kemur með mót eða skapalón sem hægt er að smíða eftir. Sölufulltrúar í verslun geta gefið ráðleggingar með hvernig svamp væri æskilegast að nota hverju sinni.

   
 5. Er heimsending innifalin við kaup á vörum?
  Heimsending er ekki innifalin í kaupverði vöru. Með þessu bjóðum við viðskiptavinum uppá þá valmöguleika að sækja vörur á lagerinn okkar (frítt) eða fá heimsendingu upp að dyrum á höfuðborgarsvæðinu gegn vægu gjaldi. Ef um er að ræða stærri húsgögn á borð við rúm, sófa, hægindastóla, rúmgafla ofl. þarf að vera burðarmaður á staðnum til að halda undir með bílstjóranum. Viðskiptavinum býðst einnig að kaupa svokallaða lúxussendingu en hún inniheldur heimsendingu upp að dyrum á höfuðborgarsvæðinu með tveimur mönnum. Kynntu þér nánar heimsendingarþjónustu Vogue með því að smella
  HÉR.

   
 6. Er hægt að greiða fyrir vörur hjá Vogue með Netgíró eða Pei?
  Já, hægt er að greiða með Netgíró í báðum verslunum okkar, Síðumúla 30 og Hofsbót 4, sem og í vefverslun okkar á www.vogue.is. Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að netgíró geta skráð sig
  HÉRNetgíró býður uppá kortalaus viðskipti á netinu sem þýðir að viðskiptavinir þurfa eingöngu að gefa upp kennitölu og lykilorð þegar greiða á fyrir vöruna og að því loknu er pöntunin móttekin. Í kjölfarið stofnast reikningur á kaupanda í heimabanka sem greiða þarf innan 14 daga, vaxtalaust. Viðskiptavinir hafa þó einnig val um að dreifa greiðslum á 2-12 mánuði í gegnum heimasvæði sitt hjá netgíró.
  Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að Pei greiðslumiðlun geta skráð sig HÉR. Þegar verslað er með Pei færð þú greiðsluseðil í heimabankann sem þú hefur 14 daga til að borga. Þú getur sótt um aukinn greiðslufrest með 30/60 þjónustunni hjá Pei eða dreift greiðslum á allt að 48 mánuði. Athugið að einnig er hægt að útbúa raðgreiðslusamning í gegnum Valitor þar sem dreifa má greiðslum í 2-36 mánuði. Vogue býður uppá vaxtalausar greiðslur í allt að 12 mánuði. Allir raðgreiðslusamningar hjá Valitor verða að afgreiðast símleiðis eða með starfsfólki í verslunum okkar. Athugið að kaupandi verður að hafa rafræn skilríki í síma ef skrifa á undir raðgreiðslusamning símleiðis.
   
 7. Er Vogue eingöngu húsgagnaverslun? Hvað varð um gömlu Vogue vefnaðarvöruverslunina?
  Í dag samanstendur Vogue fyrir heimilið af nokkrum fyrirtækjum sem sameinuðust öll undir einn hatt fyrir nokkrum árum síðan. Um er að ræða fyrirtækin  Pétur Snæland, Lystadún, Marco og Vogue. Vogue fyrir heimilið er því bæði vefnaðarvöruverslun sem selur nálar, tvinna, tölur, rennilása, efni, gardínur og allt sem góð vefnaðarvöruverslun þarf að hafa auk þess sem Vogue selur fyrsta flokks rúm og húsgögn fyrir heimilið frá framleiðendum víðsvegur um Evrópu. Ef þú ert að sauma eða vilt láta sérsmíða fyrir þig rúm, svamp, gluggatjöld, rúllugardínur eða versla þér hágæða húsgögn, þá þarftu ekki að leita lengra en hjá okkur í Vogue fyrir heimilið.

   
 8. Býður Vogue uppá viðgerðarþjónustu á gardínum?
  Já, Vogue fyrir heimilið býður uppá viðgerðar- og viðhaldsþjónustu á öllum gardínum sem framleiddar eru hjá Vogue fyrir heimilið. Þar að auki eigum við flest alla aukahluti í rúllugardínur (t.d. drif, keðjur, keðjulása ofl.) og gluggatjöld (t.d. hjól, lykkjur, borða ofl.) til á lager hjá okkur. Það er meðal annars hægt að koma með gamla rúllugardínu sem farið er að sjá á og lífga uppá hana með því að láta skipta um efnið á rúllugardínunni sjálfri. Við hjá Vogue framleiðum okkar eigin gardínur og gluggatjöld svo ef það er kominn tími á nýjar gardínur er hægt að koma með þær gömlu og við getum sérsniðið nýjar gardínur út frá þeim gömlu. Endilega sendu okkur fyrirspurn á vogue@vogue.is ef þú ert með einhverjar vangaveltur um viðgerðir eða viðhald á gardínum.

   
 9. Hvar er hægt að sækja vöru sem er keypt í vefversluninni hjá Vogue?
  Þegar gengið er frá kaupum í netverslun okkar býðst viðskiptavinum að velja hvert þeir sækja vöruna. Hægt er nálgast pantanir úr netverslun næsta virka dag á lager okkar í Síðumúla 30 í Reykjavík. Einnig er hægt að velja um að sækja pöntunina í verslun okkar við Hofsbót 4 á Akureyri en afhending getur tekið um 3-5 virka daga. Viðskiptavinum, þá sérstaklega á landsbyggðinni, býðst einnig að sækja pöntunina á næsta pósthús, Flytjanda eða Landflutninga gegn vægu gjaldi. Athugið að flutningskostnaður greiðist svo samkvæmt verðskrá flutningsaðila sem finna má á vefsíðum þeirra. Afgreiðslutími lagers er alla virka daga milli klukkan 10 og 16 (lokað á lau og sun). Lagerinn er staðsettur í sama húsi og verslunin svo gengið er beint inn í verslunina til að sækja pöntunina. Athugið að einnig er hægt að velja um að fá pöntunina senda heim upp að dyrum gegn vægu gjaldi.

   
 10. Hver er opnunartími verslanna?
  Verslanir okkar í Síðumúla 30 og Hofsbót 4 eru opnar alla virka dag milli klukkan 10 og 18. Um helgar er opið frá klukkan 11 - 16 í Síðumúla 30 en frá klukkan 11 - 14 í Hofsbót 4. Lagerinn okkar er lokaður um helgar en er opinn alla virka daga milli klukkan 10 og 16. Báðar verslanir eru lokaðar á sunnudögum. Þar að auki er lokað á almennum frídögum og stórhátíðum. Athugið þó að hægt er að versla í netverslun okkar allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.